Frá því að Hallur keypti trommusett fyrir fermingarpeningana sína hefur hann verið í hinum ýmsu rokkhljómsveitum. Ber þar hæst Gypsy sem að sigraði Músíktilraunir, Ham og hans eigin hljómsveit Thirteen sem að hefur gefið út 4 breiðskífur sem allar hafa komið út um alla Evrópu. Við stofnun Thirteen fór Hallur strax að leika á fleiri hljóðfæri til að koma hugmyndum sínum til skila, og 2 síðustu breiðskífur hefur hann gert að öllu leiti upp á eigin spýtur. Leikið á öll hljóðfæri og tekið upp sjálfur. Þannig hefur því einnig verið háttað í öðrum verkum Halls fyrir dansverk, leikhús og kvikmyndir. "Ég er ekkert sérstaklega góður á öll þessi hljóðfæri sem að ég spila á, en ég er bara oft fljótari að klöngrast í gegnum það að gera þetta sjálfur en að útkýra hugmyndir mínar fyrir öðrum. Svo er líka svo spennandi og mikið frelsi í því að vita ekkert alltof vel hvað maður er að gera. Þetta verður meiri "hljóðfæra-leikur", og það er oft meiri karakter í því en þegar fagmaður "afgreiðir" þetta". Hallur er þekktur fyrir að koma á óvart og hafa mjög fjölbreyttan stíl sem er þó mjög auðþekkjanlegur. Oft eru verk hans hrá og grófgerð, einföld og stundum jafnvel barnaleg en umfram allt mannleg. "Mikið af þeirri tónlist sem að ég geri heyrir fólk aðeins einu sinni. Það verður því að geta hrifist strax með. Það er líka alltaf ögrun í því að geta komið sínum pælingum á framfæri á aðgengilegan hátt þannig að það skiljist strax. Ég á líka sjálfur best með að tengja mig við hráa og "ófullkomna" tónlist. Hún samsvarar sig betur mínum tilfinningum og hvernig ég upplifi hlutina heldur en eitthvað sem er fágað og pottþétt - þó að maður geti auðvitað dáðst að því líka - bara úr meiri fjarlægð". "Tölvutæknin og forrittunarmöguleikar tónlistar eru alger bylting, og ég notfæri mér tæknina mjög mikið. Tæknin flýtir fyrir og gerir manni kleyft að lagfæra og hreyfa hluti til og lengja og stytta eftir því sem að verkin kalla á. Hún er frábært verkfæri sem eykur möguleikana en býr ekkert endilega til betri tónlist. Þetta er best í bland". |
||||||